Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 226/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 226/2022

Fimmtudaginn 18. ágúst 2022

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. apríl 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hennar um milliflutning í annað félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um milliflutning úr núverandi félagslegu leiguhúsnæði í annað félagslegt leiguhúsnæði með umsókn, dags. 5. júní 2020. Umsókn kæranda um milliflutning var samþykkt á biðlista með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 30. júní 2020. Kærandi endurnýjaði umsókn sína 27. apríl 2021 og 3. mars 2022.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 28. apríl 2022. Með bréfi, dags. 29. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni 12. maí 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda 25. maí 2022 og voru þær kynntar Reykjavíkurborg með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. júní 2022. Viðbótargreinargerð Reykjavíkurborgar barst 14. júní 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. júní 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 28. júní 2022 og voru þær kynntar Reykjavíkurborg með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. júní 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. júlí 2022, var óskað eftir frekari upplýsingum frá Reykjavíkurborg vegna málsins. Umbeðnar upplýsingar bárust 15. ágúst 2022 og voru þær kynntar kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. ágúst 2022.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi vilji kæra bið og vinnubrögð þeirra sem hafi séð um milliflutning í félagslegt leiguhúsnæði fyrir hana.

Í maí 2020 hafi kærandi sótt um milliflutning í annað félagslegt leiguhúsnæði. Kærandi hafi fengið synjun þar sem hún hafi ekki verið búin að búa í íbúðinni í þrjú ár. Eftir að hafa talað við húsnæðisfulltrúa um ástæðuna fyrir milliflutning hafi umsóknin verið samþykkt. Nú séu að verða komin tvö ár frá því að kærandi hafi sótt um milliflutning og frá samþykkt umsóknar. Kæranda finnist þetta vera frekar löng bið þar sem hún sé að sækja um milliflutning vegna heilsuleysis og þessi bið sé að skemma mikla vinnu sem kærandi sé búin að leggja í vegna andlegra veikinda.

Kærandi greinir frá því að ástæða milliflutnings sé vegna heilsuleysis og hún sé með tvö læknisvottorð sem staðfesti það og geri góða grein fyrir hennar veikindum. Kærandi eigi erfitt með að ganga stiga og þar sem hún búi núna á þriðju hæð í lyftulausu húsi verði hún að sækja um flutning. Kærandi sé mjög einangruð og fari einungis út sé það nauðsynlegt, til dæmis til að fara með barnið sitt á leikskóla þær vikur sem hún sé með barnið. Kærandi versli flestar nauðsynjar á Heimkaup sem sé ekki beint hagstætt fyrir öryrkja en hún neyðist til þess.

Veikindasaga kæranda sé löng og bæði af líkamlegum og andlegum toga. Kærandi hafi fengið blóðtappa í hægri fótlegg árið 2018 eftir að hafa fótbrotnað. Blóðtappinn hafi komið út frá gipsmeðferð. Kærandi hafi ekki náð sér í fætinum eftir blóðtappann. Fóturinn bólgni upp og miklir verkir fylgi því að ganga. Kærandi sé í mjög reglulegum samskiptum við lækninn sinn vegna þessa. Þá sé kærandi með slitsjúkdóm í baki sem valdi bólgum og verkjum í bakinu sem leiði niður í vinstri fót þar sem hún dofni alveg niður í tær og eigi það til að missa fótinn undan sér. Kærandi hafi þjáðst lengi af miklum vöðvabólgum í öxlum og hálsi vegna kvíða og áfallastreitu sem hún hafi verið með frá því að hún muni eftir sér. Sé vöðvabólgan mikil fái hún þráláta tennisolnboga sem geti varað í marga mánuði í senn. Kærandi sé búin að vera hjá sjúkraþjálfara sem segi að það sé ekki hægt að vinna með líkamlegu veikindin á meðan hún sé að gera það sem hún megi ekki gera.

Kærandi tekur fram að hún sé greind með áfallastreitu, almenna kvíðaröskun, félagsfælni og ADHD. Hún hafi verið í veikindafríi frá árinu 2013. Kærandi hafi verið í alls konar meðferðum við andlegum veikindum sínum og hafi verið komin í bókhaldsnám sem hún hafi þurft að hætta í árið 2020. Þá hafi komið slæm bakslög varðandi heilsu hennar, bæði andleg og líkamleg. Kærandi sé nýlega komin inn í greiningarferli hjá Þraut út af vefjagigt og sálfræðingur hennar þar sé búinn að ræða við hana um að koma henni í meðferð hjá Þraut.

Kærandi hafi oft sagt húsnæðisfulltrúa þjónustumiðstöðvar Breiðholts að endurhæfing hennar snúist mikið um að rjúfa félagslega einangrun og mikið bakslag sé komið í þá vinnu vegna þeirrar biðar sem hafi orðið á milliflutningi.

Kærandi hafi leitað til umboðsmanns borgarbúa til að reyna að fá hjálp með milliflutning, án árangurs. Hún komi alls staðar að lokuðum dyrum og upplifi leiðindi og vanvirðingu í sinn garð, bæði frá þjónustumiðstöð Breiðholts og umboðsmanni borgarbúa. Kærandi upplifi að það sé gert lítið úr henni og hennar veikindum. Það sjáist frekar vel bæði á umsókn hennar og greinargerðum en þær geri aldrei nákvæma grein fyrir aðstæðum og vanda kæranda. Þegar bætt sé inn upplýsingum séu aðrar upplýsingar teknar út í staðinn. Það vanti alltaf einhverjar upplýsingar. Eins séu upplýsingar í greinargerð sem eigi ekkert við um kæranda og hún hafi aldrei sagt.

Umsókn kæranda um milliflutning, sem fylgi máli hennar til úrskurðarnefndar, geymi engar upplýsingar um vanda kæranda. Umsóknin sé ekki merkt í forgang, kærandi sé titluð sem ómenntaður starfsmaður/verkamaður en hún hafi verið á örorku í nokkur ár og ætti því að vera skráð sem öryrki. Umsóknin og greinargerðin hljómi eins og kærandi sé að sækja um flutning út af stækkun á húsnæði, sem sé ekki ástæða þess að kærandi hafi sótt um flutning, en hafi viljað hafa það með til að fá fleiri stig. Húsnæðisfulltrúi hafi mælt með því að kærandi myndi sækja um fjögurra herbergja íbúð þar sem kærandi sé núna með tvö börn í þriggja herbergja íbúð.

Öll þau vinnubrögð sem tengist milliflutningnum hjá kæranda séu út í hött og þau svör sem kærandi fái við spurningum, bæði frá umboðsmanni borgarbúa og þjónustumiðstöð Breiðholts, eigi ekki við nein rök að styðjast. Í byrjun janúar 2022 hafi kærandi beðið tiltekinn húsnæðisfulltrúa um að lesa yfir greinargerð hennar þar sem hana hafi grunað að það hafi vantað eitthvað í hana sem hún hafi gert og það hafi reynst rétt. Það hafi vantað upplýsingar um líkamlegu veikindi kæranda. Eins og greinargerðin sé núna, þegar það hafi verið bætt í hana öllu sem hafi vantað, hafi verið tekið út hvað þessi bið sé að hafa slæm áhrif á andlega heilsu kæranda.

Upphaflega hafi kærandi verið með óskir um staðsetningu í hverfi 112 þar sem hennar stuðningsnet búi þar og húsnæðisfulltrúinn hafi ráðlagt kæranda það. Fljótlega hafi kærandi breytt óskum um staðsetningu og bætt við hverfum 113, 110 og 109 svo að milliflutningurinn myndi ganga hraðar. Núna sé kærandi eingöngu með eina ósk og það sé að vera ekki í hverfi 111 því að ekkert hafi verið að ganga með þennan milliflutning.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Reykjavíkurborgar greinir kærandi frá því að umsókn hennar hafi alltaf verið metin til sex stiga, ólíkt því sem komi fram í greinargerð Reykjavíkurborgar. Í fylgiskjölum sem kærandi hafi sent með kæru hafi kærandi sent allar greinargerðir sem hafi verið gerðar vegna umsóknar hennar um milliflutning. Í fyrstu greinargerðinni, dags. 28. september 2020, komi fram að kærandi sé metin til sex stiga. Þá hafi væntanlega ekki verið gerðar neinar breytingar á stigagjöf þegar kærandi hafi endurnýjað umsóknina á ársfresti.

Á fundi sem kærandi hafi átt við með húsnæðisfulltrúa í júní 2020, þegar hún hafi verið að áfrýja umsókn sinni um milliflutning, hafi fulltrúinn rætt að það væri hægt að fá fleiri stig ef kærandi myndi sækja um stækkun á íbúð. Þá hafi kærandi tekið það skýrt fram við húsnæðisfulltrúann að hún væri ekki að sækja um flutning út af stækkun heldur heilsuleysi. Húsnæðisfulltrúinn hafi sagt að það myndi hjálpa að hafa það með þar sem kærandi fengi fleiri stig.

Frá 30. júní 2020 hafi kærandi spurt húsnæðisfulltrúana hvers vegna hún fengi ekki stig fyrir mikil vandkvæði bundin við núverandi húsnæði sem myndi hækka stigagjöfina um fjögur stig. Svarið hafi alltaf verið að það ætti ekki við um kæranda. Það hafi ekki verið nefnt við kæranda að hún gæti kært stigagjöfina til velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Þann 10. maí 2022 hafi kærandi fengið bréf inn á pósthólf sitt um að endurmat hafi verið gert á stigagjöf og umsókn hennar metin til sex stiga. Kærandi hafi sent húsnæðisfulltrúa tölvupóst vegna stigagjafarinnar þar sem henni hafi alltaf verið sagt þegar hún spurði út í stigagjöfina að það væru ekki sömu matsviðmið fyrir milliflutning og þegar hún hafi sótt um upphaflega. Bréf sem kærandi hafi fengið er varðaði stigagjöfina séu matsviðmið er varði almennt félagslegt leiguhúsnæði og á þann lista vanti mörg stig sem kærandi gæti verið með. Svar húsnæðisfulltrúans þegar kærandi spyrji út í stigagjöf sé að ekki sé verið að horfa í þessa þætti þegar um milliflutning sé að ræða. Kærandi spyrji af hverju ekki sé notað matsviðmið varðandi milliflutning sem eigi að fara eftir við mat á stigagjöf í milliflutningi eins og standi í 3. mgr. 23. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði.

Í greinargerð Reykjavíkurborgar komi fram að í greinargerðum sem fylgi umsókn kæranda um milliflutning hafi verið gerð góð skil á heilsufari kæranda og að greinargerðirnar hafi verið unnar í samráði við kæranda. Greinargerð, dags. 27. janúar 2022, sé eina greinargerðin sem hafi verið unnin í samráði við kæranda. Við gerð á fyrrgreindri greinargerð hafi húsnæðisfulltrúi hringt í kæranda og lesið upp greinargerðina og beðið kæranda að segja sér hvort eitthvað kæmi þar fram sem ætti ekki við eða hvort einhverjar upplýsingar hafi vantað. Umræddur húsnæðisfulltrúi hafi svo endurskrifað greinargerðina og bætt við upplýsingum sem kærandi hafi nefnt að hafi vantað eftir þeirra samtal. Kærandi hafi því í raun ekkert vitað hvernig greinargerðin hljóðaði og vegna vantrausts á þeim hafi hún óskað eftir öllum gögnum um milliflutninginn til þess að lesa greinargerðina.

Ástæðan fyrir því að húsnæðisfulltrúi hafi hringt í kæranda hafi verið vegna upplýsinga sem hún hafi verið að vitna í úr samtölum sem hún hafi átt við kæranda sem hafi ekki verið réttar, til dæmis óskir um staðsetningu, upplýsingar varðandi dóttur kæranda og að hún gæti ekki verið ofar en á annarri hæð vegna lofthræðslu. Kærandi hafi því sent tölvupóst og lýst óánægju sinni. Kærandi hafi margsinnis verið búin að spyrja hvort allt kæmi fram í greinargerðunum sem þyrfti að koma fram. Meðfylgjandi gögnum máls séu tölvupóstar á milli kæranda og húsnæðisfulltrúans.

Í greinargerðunum hafi ekki komið skýrt fram upplýsingar um heilsu kæranda, svo sem hvað varði slit og bólgur í baki sem leiði niður í vinstri fót. Þá hafi ekki verið farið rétt með veikindi kæranda í hægri fæti. Það hafi verið talað um að kærandi væri slæm þar sem hún hafi brotnað en rétt sé að kærandi sé með verki og fóturinn bólgni upp við minnsta álag þar sem kærandi hafi fengið blóðtappa. Eingöngu sé talað um stoðkerfisverki og bakverki, sem sé líka rétt, en það væri hægt að nefna í þessum greinargerðum að ein af ástæðum þess að kærandi eigi erfitt með að ganga stiga sé út af verkjum í báðum fótleggjum.

Kærandi hafi skilað húsnæðisfulltrúa öðru læknisvottorði, dags. 25. febrúar 2022, frá bæklunarlækni hennar. Greinargerð kæranda hafi ekki verið uppfærð í samræmi við það sem þar komi fram. Kærandi hafi því skilað inn vottorði til húsnæðisfulltrúa eftir að hafa talað við hana um að hún væri að versna í bakinu og að það væri að leiða niður í vinstri fót. Hún hafi sagt að kærandi yrði að skila inn læknisvottorði því til staðfestingar. Kærandi hafi gert það en samt setji hún ekki nýjar upplýsingar inn í mál kæranda.

Kærandi hafi einangrast mikið. Hún fari eingöngu út úr húsi af nauðsyn þar sem hún sé einstæð móðir með tvö börn og þurfi að sinna ýmsum erindum tengdum þeim. Að vera alltaf verkjuð taki mikið á andlega. Kærandi hafi verið að vinna með andlegu veikindi sín í mörg ár og að vera í þessari stöðu valdi miklu bakslagi í þeirri vinnu. Kærandi hafi verið að fást við veikindi sín frá árinu 2013 þegar hún hafi fyrst farið í veikindafrí. Kærandi hafi verið komin í bókhaldsnám hjá NTV en hafi þurft að hætta árið 2020 þar sem það hafi verið orðið of mikið fyrir hana. Kæranda finnist ekki vera gerð góð skil á andlegum veikindum hennar í greinargerðunum, þrátt fyrir að hún hafi margsinnis lýst stöðu sinni. Þar finnist kæranda að Reykjavíkurborg hafi brotið 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Reykjavíkurborg eigi að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál en ekki skapa eða viðhalda þeim.

Lögfræðingur Reykjavíkurborgar taki fram að félagsráðgjafi kæranda hafi verið í sambandi við hana símleiðis á tveggja vikna fresti til að upplýsa hana um stöðu mála. Það sé alls ekki rétt. Kærandi nefnir að umræddir starfsmenn séu húsnæðisfulltrúar en ekki félagsráðgjafar. Kæranda hafi verið sagt að þær myndu sjá um milliflutning hennar en ef það væri eitthvað annað sem vantaði ætti hún að tala við afgreiðslu og fá að tala við vakthafandi félagsráðgjafa. Því sé kærandi ekki með neinn félagsráðgjafa. Umræddir starfsmenn hafi ekki verið í sambandi við kæranda á tveggja vikna fresti. Þeir hafi aldrei verið í sambandi við kæranda að fyrra bragði, eingöngu ef hún hafi verið að forvitnast eða minnt á sig. Þá hafi þær svarað kæranda, stundum seint og illa. Hafi húsnæðisfulltrúar hringt í kæranda hafi það verið vegna þess að kærandi hafi beðið um það. Annars hafi öll samskipti verið í gegnum tölvupósta.

Kærandi hafi aldrei hitt þann starfsmann sem hafi séð um mál hennar í fjarveru annars starfsmanns sem hafi verið í fæðingarorlofi. Sá starfsmaður hafi eingöngu tekið við máli kæranda vegna þess að kærandi hafi talað við umboðsmann borgarbúa. Þegar tiltekinn starfsmaður hafi farið í fæðingarorlof hafi kærandi spurt hver kæmi til með að sjá um mál hennar og fengið þau svör að enginn ætti að taka við málinu. Mál kæranda yrði í ferli hjá þeim og það yrði hringt í kæranda þegar henni yrði úthlutað húsnæði.

Í greinargerð Reykjavíkurborgar komi fram að sveitarfélagið líti svo á að það hafi tryggt kæranda félagslegt leiguhúsnæði og þar af leiðandi stangist biðtíminn ekki á við stjórnsýslulög um málshraða. Reykjavíkurborg hafi úthlutað kæranda félagslegu leiguhúsnæði sem sé rétt og kærandi sé þeim þakklát fyrir það. Aðstæður kæranda hafi þó breyst frá því að henni hafi verið úthlutað húsnæði og því þurfi hún milliflutning sökum heilsuleysis. Kærandi geti ekki orðið sér úti um húsnæði öðruvísi, almenni leigumarkaðurinn sé of dýr fyrir hana og hún geti ekki keypt íbúð í ljósi fjárhagsstöðu sinnar. Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði eigi þær umsóknir sem fái undanþágu frá þriggja ára búsetu á sama stað að raðast í forgangsröð. Kærandi geri sér fulla grein fyrir því að milliflutningur taki alltaf einhvern tíma og hún sé ekki að heimta tafarlausa þjónustu. Tvö ár sé full langur tími þar sem kærandi eigi erfitt með að fara inn og út og eigi erfitt með að ganga stiga samkvæmt læknisvottorði.

Eins og lögfræðingur Reykjavíkurborgar taki fram í greinargerð hafi hingað til aðrir umsækjendur verið metnir í meiri þörf fyrir milliflutning heldur en kærandi. Ef þau gögn sem kærandi hafi sent með kærunnni séu skoðuð sé auðvelt að sjá að ástæðan fyrir því að kærandi sé ekki búin að fá milliflutning sé vegna þess hvernig hennar umsókn, greinargerð og mál hennar hefur verið unnið af hálfu þjónustumiðstöðvar Breiðholts. Í gögnunum sé hægt að sjá að það sé hvorki hlustað né tekið mark á hennar veikindum og að upplýsingar um hana séu ekki að skila sér inn í hennar mál. Þar af leiðandi sé ómögulegt fyrir ráðgjafa úthlutunarteymis að meta umsókn kæranda rétt þegar komi að því hvar hún eigi að vera í forgangsröðuninni.

Í athugasemdum kæranda frá 28. júní 2022 kemur fram að ástæða kærunnar sé bæði að hún telji að afgreiðsla málsins hafi dregist óhóflega og því sé um að ræða brot á málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga svo og öll vinnsla máls hennar hjá þjónustumiðstöðinni. Þegar gert sé lítið úr veikindum kæranda sé ómögulegt fyrir ráðgjafa úthlutunarteymis að meta umsókn kæranda rétt þegar það komi að því hvar hún eigi að vera á biðlista úthlutunar.

Að mati kæranda sé svar Reykjavíkurborgar með stigagjöfina frekar loðið og engan veginn skiljanlegt. Rétt eins og svarið sem kærandi hafi sent inn til úrskurðarnefndar frá húsnæðisfulltrúa þegar kærandi hafi beðið um rökstuðning á stigagjöf, hafi hún ekki haft hugmynd um hvers vegna stigagjöfin væri svona. Kærandi biðji úrskurðarnefndina að skoða vel öll þau gögn sem hún hafi sent inn með kærunni. Til að sanna orð sín um heilsuna setji kærandi inn greiningarmat frá Þraut og niðurstöður úr seinustu myndatöku sem kærandi hafi farið í. Þrátt fyrir að þetta séu nýleg gögn hafi kærandi margsinnis sagt húsnæðisfulltrúunum á þjónustumiðstöðinni frá ástandi sínu og því ætti þeim að vera vel kunnugt um það.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára gömul kona. Kærandi hafi sótt um milliflutning úr núverandi félagslegu húsnæði í annað félagslegt leiguhúsnæði með umsókn, dags. 5. júní 2020, sem hafi verið samþykkt með bréfi þjónustumiðstöðvar Breiðholts, dags. 30. júní 2020. Í framangreindu bréfi hafi komið fram að umsókn kæranda um milliflutning hafi verið metin til þriggja stiga. Kærandi hafi endurnýjað umsókn sína þann 27. apríl 2021 og aftur 3. mars 2022. Samkvæmt endurmati hafi umsókn kæranda verið metin til sex stiga. Munurinn á milli framangreindrar stigagjafar orsakist af því að kærandi hafi óskað eftir að fá úthlutað fjögurra herbergja íbúð þar sem hún eigi tvö börn, en núverandi félagsleg íbúð sé þriggja herbergja.

Af gögnum máls megi ætla að kærandi sé ósátt við upplýsingar í greinargerðum sem hafi verið unnar af hálfu félagsráðgjafa á þjónustumiðstöð Breiðholts. Óánægja kæranda virðist beinast sérstaklega að upplýsingum varðandi heilsufar hennar. Reykjavíkurborg telji að allt sem skipti máli varðandi heilsufar og félagslegar aðstæður kæranda hafi verið tekið fram í þeim greinargerðum sem um ræði, auk þess sem þær hafi verið unnar í samráði við kæranda. Kæranda hafi verið bent á rétt sinn til að áfrýja veittri stigagjöf við mat á milliflutningi úr einu félagslegu leiguhúsnæði yfir í annað til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Reykjavíkurborg tekur fram að um félagslegt leiguhúsnæði gildi reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði sem hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 19. janúar 2019 og á fundi borgarráðs þann 27. janúar 2022. Reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði hafi tekið gildi þann 1. júní 2019. Reglur þessar kveði á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum sé skylt að veita. Reglurnar séu settar með stoð í XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, 9. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og 4. tölul. 13. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar sé almennt félagslegt leiguhúsnæði ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem séu ekki á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga skuli sveitarstjórnir, eftir því sem kostur sé og þörf sé á, tryggja framboð af leiguhúsnæði handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Af orðalagi ákvæðisins leiði að þeir einstaklingar, sem uppfylli skilyrði reglna sveitarfélags til að fá almennt félagslegt leiguhúsnæði, kunni að þurfa að bíða í nokkurn tíma eftir því að fá úthlutað slíku húsnæði. Unnið sé að því að útvega kæranda öðru félagslegu leiguhúsnæði en umsóknum um milliflutning úr núverandi félagslegu leiguhúsnæði í annað sé forgangsraðað með hliðsjón af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum, sbr. 4. mgr. 23. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Jafnframt sé tekið mið af þjónustuþörf umsækjanda. Hingað til hafi aðrir umsækjendur verið metnir í meiri þörf fyrir milliflutning heldur en kærandi.

Sveitarfélögum sé tryggður sjálfstjórnarréttur í samræmi við ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar og í honum felist meðal annars það að sveitarfélög ráði hvernig útgjöldum sé forgangsraðað í samræmi við lagaskyldur og áherslur hverju sinni. Með hliðsjón af þeirri sjálfstjórn sem sveitarfélögum sé veitt, setji þau sér sínar eigin reglur um rétt íbúa á grundvelli laganna. Lögunum sé því einungis ætlað að tryggja rétt fólks en ekki skilgreina hann, enda sé það verkefni hvers sveitarfélags. Einstaklingar geti því ekki gert kröfu um ákveðna, skilyrðis- og tafarlausa þjónustu heldur helgist framboð hennar af því í hvaða mæli sveitarfélagi sé unnt að veita þjónustuna. Í samræmi við framangreint hafi Reykjavíkurborg sett reglur um félagslegt leiguhúsnæði.

Reykjavíkurborg líti svo á að borgin hafi þegar tryggt kæranda félagslegt leiguhúsnæði, sbr. 1. mgr. 45. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Með hliðsjón af framangreindu sé því hafnað að biðtími kæranda eftir milliflutningi úr núverandi leiguhúsnæði í annað félagslegt leiguhúsnæði sé óásættanlegur eða gangi með einhverjum hætti í berhögg við 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þá sé rétt að geta þess að í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga hafi ráðgjafi kæranda reglulega, nánar tiltekið á tveggja vikna fresti, upplýst hana símleiðis um stöðu umsóknar hennar um milliflutning.

Með hliðsjón af framangreindu sé það mat Reykjavíkurborgar að málsmeðferð í máli kæranda hafi verið í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga og að kærandi hafi verið upplýst um þær tafir sem hafi orðið á afgreiðslu á máli hennar. Ljóst sé að Reykjavíkurborg hafi ekki brotið gegn lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, stjórnsýslulögum eða ákvæðum annarra laga.

Í athugasemdum kæranda, dags. 25. maí 2022, komi fram að í svarbréfi þjónustumiðstöðvar Breiðholts hafi matsblað, sem miði að matsviðmiðum fyrir almennt félagslegt húsnæði, verið sent með í staðinn fyrir matsviðmið um milliflutninga sem tilgreind séu í fylgiskjölum númer fimm til átta í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, sbr. 4. mgr. 23. gr. framangreindra reglna. Þegar svarbréf séu send úr húsnæðisgrunni Reykjavíkurborgar séu sjálfkrafa send matsviðmið fyrir almennt félagslegt leiguhúsnæði en ekki matsviðmið fyrir milliflutning þó svo að um umsókn um milliflutning sé að ræða. Unnið sé að því að lagfæra framangreint en nýtt húsnæðiskerfi hafi verið tekið í notkun á árinu og ljóst sé að einhverjir vankantar séu þar á sem þarfnist lagfæringar. Beðist sé velvirðingar á því.

Í svari Reykjavíkurborgar frá 15. ágúst 2022 kemur fram að kærandi hafi sótt um milliflutning með umsókn, dags. 5. júní 2020. Frá því að umsókn kæranda hafi verið samþykkt í júní 2020 og fram í febrúar 2021 hafi umsókn kæranda ekki verið tilnefnd til úthlutunarteymis félagslegs leiguhúsnæðis. Kærandi hafi óskað eftir þriggja herbergja íbúð og hafi einungis viljað vera staðsett í Grafarvogi eða Grafarholti og á framangreindu tímabili hafi ekki margar íbúðir verið lausar sem uppfylltu framangreindar kröfur ásamt því að aðrir umsækjendur hafi verið metnir í meiri þörf en kærandi.

Í mars 2021 hafi verið tekið upp nýtt verklag varðandi úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis sem felist í því að miðstöðvar Reykjavíkurborgar tilnefni ekki lengur umsóknir til úthlutunar til úthlutunarteymis félagslegs leiguhúsnæðis heldur fari úthlutunarteymið yfir umsóknir og úthluti til þeirra sem séu í mestri þörf. Umsóknir raðist í forgangsröð með hliðsjón af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt niðurstöðu stigagjafar samkvæmt matsviðmiðum. Félagsráðgjafar uppfæri gildar umsóknir á þriggja mánaða fresti, eða oftar eftir aðstæðum, en upplýsingar um hverja umsókn séu aðgengilegar í húsnæðisgrunni Reykjavíkurborgar. Samkvæmt húsnæðisgrunni Reykjavíkurborgar hafi kærandi ávallt átt uppfærða umsókn.

IV.  Niðurstaða

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála vegna afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hennar um milliflutning í annað félagslegt leiguhúsnæði. Fram kemur í kæru að kærð sé bið og vinnubrögð hjá þeim sem hafi séð um mál hennar er varðar milliflutning.

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur fram að aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir teknar samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í sömu málsgrein segir að nefndin meti að nýju alla þætti kærumáls og að nefndin geti fellt úr gildi ógildanlegar ákvarðanir í heild eða að hluta en ekki tekið nýja ákvörðun í máli fyrir hönd sveitarfélags. Af framangreindu er ljóst að úrskurðarvald nefndarinnar er afmarkað við að fjalla um réttmæti tiltekinnar ákvörðunar eða ákvarðana sem teknar eru á grundvelli laga nr. 40/1991. Undantekningu frá þeirri meginreglu er að finna í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem mælt er fyrir um að heimilt sé að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls. Úrskurðarnefndin telur að framkomin kæra hafi verið lögð fram á grundvelli framangreinds ákvæðis, enda ljóst að Reykjavíkurborg hafði þann 30. júní 2020 samþykkt umsókn kæranda um milliflutning og hefur hún verið á biðlista eftir öðru félagslegu leiguhúsnæði frá þeim tíma. Umsókn kæranda var endurnýjuð 27. apríl 2021 og 3. mars 2022.

Í XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna kemur fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa.

Í 2. mgr. 23. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði kemur fram að heimilt sé að óska eftir milliflutningi þegar þrjú ár eru liðin frá síðustu úthlutun. Umsækjendur um milliflutning geti sótt um undanþágu frá skilyrðinu um þriggja ára búsetu í núverandi félagslegu leiguhúsnæði séu veigamiklar ástæður fyrir flutningi, svo sem alvarlegt heilsuleysi eða mikil vandkvæði bundin við núverandi búsetu. Fullnægi umsækjandi eftir atvikum skilyrðum 4. gr., 7. gr., 11. gr. eða 14. gr. reglnanna raðast umsóknir um milliflutning í forgangsröð með hliðsjón af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum, sbr. 3. mgr. 23. gr. reglnanna. Í 4. mgr. 23. gr. kemur fram að um milliflutninga gildi eftir atvikum þau matsviðmið sem tilgreind séu í fylgiskjölum númer fimm til átta í reglunum. Þá segir í 5. mgr. 23. gr. að umsækjanda skuli tilkynnt skriflega um hvort umsókn hans um milliflutning hafi verið samþykkt á biðlista og hvernig umsókn hans hafi verið metin samkvæmt matsviðmiðum með reglunum. Þá skuli umsækjanda gerð grein fyrir nauðsyn endurnýjunar umsóknar, sbr. 29. gr. reglnanna.

Hvorki í lögum nr. 40/1991 né framangreindum reglum Reykjavíkurborgar er kveðið á um lögbundinn frest til að úthluta öðru félagslegu leiguhúsnæði til þeirra sem uppfylla skilyrði milliflutnings. Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því að líta til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við mat á því hvort afgreiðsla á máli kæranda hefur dregist. Þar kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.

Líkt og að framan greinir hefur kærandi verið á biðlista eftir milliflutningi frá 30. júní 2020. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að sveitarfélagið líti svo á að borgin hafi þegar tryggt kæranda leiguhúsnæði í samræmi við 1. mgr. 45. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Unnið sé að því að úthluta kæranda öðru félagslegu húsnæði en umsóknum um milliflutning sé forgangsraðað með hliðsjón af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum, sbr. 4. mgr. 23. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Jafnframt sé tekið mið af þjónustuþörf umsækjanda. Hingað til hafi aðrir umsækjendur verið metnir í meiri þörf fyrir milliflutning heldur en kærandi. Þá hefur Reykjavíkurborg vísað til þess að frá því að umsókn kæranda hafi verið samþykkt og fram í febrúar 2021 hafi hún einungis viljað vera staðsett í Grafarvogi eða Grafarholti og óskað eftir þriggja herbergja íbúð. Á því tímabili hafi ekki margar íbúðir verið lausar sem uppfylltu þær kröfur ásamt því að aðrir umsækjendur hafi verið metnir í meiri þörf en kærandi.

Samkvæmt þeim skýringum sem Reykjavíkurborg hefur veitt og gögnum málsins er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að sveitarfélagið hafi unnið í máli kæranda með viðunandi hætti. Líta verður til þess að kærandi er í húsnæði sem Reykjavíkurborg hefur tryggt henni. Með vísan til þess er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla máls kæranda hafi ekki dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin bendir þó á að ef fyrirséð er að á afgreiðslu málsins verði frekari tafir ber sveitarfélaginu að skýra kæranda með reglubundnum hætti frá því og upplýsa um ástæður tafanna og auk þess hvenær ákvörðunar um úthlutun húsnæðis sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Af kæru og gögnum málsins má ráða að kærandi sé ósátt með stigagjöf umsóknar sinnar um milliflutning í annað félagslegt leiguhúsnæði. Í kæru kemur meðal annars fram að kærandi hafi spurt húsnæðisfulltrúa Reykjavíkurborgar hvers vegna hún fengi ekki stig fyrir „mikil vandkvæði bundin við núverandi húsnæði“ sem myndi hækka stigagjöfina um fjögur stig. Hún hafi ekki fengið leiðbeiningar um að hún gæti kært stigagjöfina til velferðarráðs Reykjavíkusborgar.

Líkt og að framan greinir var umsókn kæranda um milliflutning endurnýjuð 27. apríl 2021 og 3. mars 2022. Með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 10. maí 2022, var kæranda tilkynnt að endurmat hefði farið fram á umsókn hennar og að það hefði ekki leitt til breytinga á stigagjöf. Umsókn hennar væri enn metin til sex stiga. Í 2. og 3. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er að finna ákvæði um leiðbeiningar sem veita skal þegar ákvarðanir eru birtar. Í 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að veita skuli leiðbeiningar um kæruheimild, þegar hún er fyrir hendi, kærufrest og kærugjöld, svo og hvert beina skuli kæru. Eins og fram kemur í ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 30. júní 2020 má skjóta ákvörðun um stigagjöf til áfrýjunarnefndar velferðarráðs eigi síðar en fjórum vikum eftir að vitneskja berst um ákvörðunina. Í framangreindu bréfi frá 10. maí 2022 var kæranda ekki leiðbeint um þann möguleika að skjóta ákvörðun um stigagjöf til áfrýjunarnefndar velferðarráðs. Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að gera athugasemd við skort á leiðbeiningum til kæranda og brýnir fyrir Reykjavíkurborg að gæta þess að leiðbeina um kæruheimild og kærufrest við birtingu ákvarðana. Þá bendir úrskurðarnefndin á að kærandi getur freistað þess að áfrýja stigagjöfinni til áfrýjunarnefndar velferðarráðs og leggja fram kæru á ný þegar ákvörðun liggur fyrir hjá áfrýjunarnefndinni, sé hún ósátt við þá ákvörðun.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ekki er fallist á að afgreiðsla Reykjavíkurborgar í máli A, hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum